Slitastjórn Glitnis ræðir við alþjóðlega fjárfesta um kaup á Íslandsbanka
Slitastjórn Glitnis leitast við að hámarka virði þrotabúsins og sala eigna hefur verið eitt af meginatriðum þeirrar stefnu. Þegar Glitnir tók við 95% af hlutabréfum Íslandsbanka í lok árs 2009 var því lýst opinberlega að hlutabréfaeignin yrði til sölu þegar fram liðu stundir og þess vænst að söluferlið gæti tekið 3 til 5 ár.
Vegna frétta í fjölmiðlum staðfestir slitastjórn að kannaðir hafa verið ýmsir kostir varðandi hlutabréfaeignina, meðal annars hugsanleg sala til alþjóðlegra fjárfesta. Rætt hefur verið við fjárfesta annars staðar á Norðurlöndum, í Ameríku og í Asíu. Viðræðum við nokkra þeirra er haldið áfram í trúnaði og einskorðast þær ekki við fjárfesta í Asíu.
Ekki er á þessu stigi hægt að fullyrða að þessar viðræður leiði til þess að formlegt tilboð verði lagt fram af hálfu tiltekins hóps fjárfesta, né tiltaka á hvaða verði hugsanleg viðskipti með hluti í Íslandsbanka gætu átt sér stað.
Í febrúar síðastliðinn staðfesti slitastjórn að viðræður væru hafnar við hóp af fjárfestum undir forystu Framtakssjóðs Íslands um kaup á hlutum Glitnis í Íslandsbanka. Þeim viðræðum hefur ekki verið haldið áfram.
Íslandsbanki hefur á þeim tíma sem liðinn er frá því að bankakreppan reið yfir á Íslandi náð góðum árangri í rekstri. Fjármálatímaritið Euromoney veitti Íslandsbanka nýverið viðurkenninguna Awards for Excellence, meðal annars vegna sterkrar eiginfjár- og lausafjárstöðu, frumkvæði í nýjungum og fjölbreytni í fjármögnun.